Forvarnardagur sjálfsvíga

Í dag er alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga. Ég ákvað að setjast niður og skrifa þennan pistil í tilefni dagsins. Ég veit ekki hversu stuttorð ég get verið en ég skal reyna eins og ég get.


Allt frá því að ég áttaði mig á því að ég ætti við mína “djöfla” að etja, leitaði mér uppi lesefni og leitaði mér hjálpar, í næstum tuttugu ár! Hefur allt átt það eina sameiginlegt að “kenna” einhverju eða einhverjum um. Eftir á að hyggja finnst mér ómældum tíma, peningum og orku hafa verið eytt í fortíðina og sökudólga. Ég veit ekki um neinn sem er alinn upp í fullkomnu umhverfi af fullkomnum aðilum undir fullkomnum kringumstæðum eða gjörsamlega fæddur með silfurskeiðina ofaní koki svífandi um á innanbarmarbleiku skýji. Við erum öll eins misjöfn og við erum mörg og samtíminn er síbreytilegur ásamt aðstæðum o.þh. Það er ekkert til sem er normal, því miður! Ef það væri til hin fullkomna manneskja, hið fullkomna umhverfi og fullkomið uppeldi þá held ég að afsprengi þeirra aðstæðna væri meiri geðsjúklingur en við hin.

Ég er komin af því sem ég flokka sem “ósköp eðlilegt” allt gott fólk sem vildi vel og gerði eins vel og það gat. Ekki dettur mér í hug að kenna neinum um mína galla eða sjúkdóma en mikið sem ég þakka fyrir allt sem ég lærði bæði á öllu því góða og því slæma. Ég tek mistök annara og læri af þeim ég tek kosti og gjafir annara og reyni að gera eins vel. Fullkomin?? ALDREI og læknuð er ég þvíaðsíður. Ég á mér ennþá djöfla og ókosti og margt sem ég á eftir að hreinlega horfast í augu við og vinna með en það sem ég hef grætt… það sem lífið hefur gefið mér….því ber að fagna.

Mér fannst ég samt alltaf öðruvísi, leið eins og ég gæti aldrei verið ég sjálf. Fannst eins og ég passaði ekki hvorki í útliti né fasi og mig þyrsti í viðurkenningu. Fannst ég aldrei nógu góð fyrir þá sem ég þráði að finndist ég góð. Ég vildi vera “normal” en allt sem gekk á í kring um mig var bara alls ekkert normal fyrir mér og ég hataði það að vera öðruvísi. Ég vildi segja það sem ég hafði að segja en var kennt fljótt að það væri ekki viðeigandi. Fólk hneykslaðist á mér en dáðist samt í leyni. Enginn dáðist að mér beint og ekki var ég hvött til að vera ég. Mitt takmark varð fljótt að gera allt sem ég gat til að fá viðurkenningu annara og passa í þennan fjandans kassa sem átti að vera eðlilegt því enginn þráir að vera öðruvísi.

Vandamálið var bara að því meira sem ég reyndi að þóknast öðrum því minna þóknaðist ég sjálfri mér. Ég vissi um nokkra af mínum kostum og hæfileikum en ég fór allt aðra leið en að upphefja þá því ég vissi að það fannst engum ég frábær í því sem mér fannst ég frábær í. Hinsvegar vissi ég alltaf og álit allra alveg um leið með allt það sem mér mistókst eða var ekki nógu gott. Ég lenti án þess að það væri ætlun neins í hringiðju völdunarhúss þar sem ég gat enganveginn fundið réttu leiðina af því að ég vissi ekki hvert allir vildu að ég færi! Lífið gaf mér allskonar uppákomur og lengi framanaf var að því gert gys að ég væri svona seinheppin og óheppin, ég fór að trúa þessu og hætti bara að trúa að ég ætti séns á “breiki” Mér fannst ekki taka því að standa á lappir af því að um leið og ég gerði það yrði ég kýld ofaní gólf að nýju. Ég GAT ekki fólk sem vildi elska mig og fannst ég frábær, en ég HLJÓP á eftir öllum þeim sem gagnrýndu mig. Ég kunni ekki að taka við hrósum og þegar ég horfði í spegil mætti ég ávallt hörðustu gagnrýninni.

Ein var lausnin sem “normið” kenndi mér að myndi laga öll mín vandamál. Ég hef alla tíð verið of þung. Þar var auðvelda leiðin út úr völundarhúsinu! Ef ég myndi hætta að vera feit þá yrði allt betra…… Það var óvart bara ekki þannig. Fyrir alla þá sem ég hélt að myndu skilgreina mig og ég þyrfti að taka mark á þá skipti það kannski máli en ekki fyrir mig sjálfa. Ég mjókkaði og það MIKIÐ en spegillinn fann bara allt annað til að dæma mig fyrir og ég fann allar aðrar leiðir til að vera ekki nógu góð.

Eftir ótal og of margar uppákomur í lífinu, fleiri en eina sjálfsvígstilraun, fjölda innlagna á geðdeild og til annara fagaðila………..til þess eins að viðhalda því sem skiptir máli í þessum pistli …….það sem ég vill koma á framfæri til allra þeirra sem eiga þá mögnuðu upplifun sameiginlega með mér að vilja deyja á einhverjum tímapunkti í lífinu. Við vitum því miður hvaða gjöf við teljum okkur vera að gefa öllum okkar nánustu þegar við erum á þessum kolsvarta stað. Það getur enginn sett sig í okkar spor, þegar eina leiðin, einstefnan og bannað að leggja báðumegin er dauðinn? Upplifðu það, þá máttu hafa skoðun á því. Eina ástæðan fyrir því að ég vill ekki deyja lengur er sú að ég hef tekið sjálfa mig í sátt. Ég er steinhætt að reyna að þóknast öllum öðrum en mér sjálfri. Í dag horfi ég til baka með sátt, ég elskaði, reyndi, gaf, gerði engum illt. Ég þakkaði hjálpir sem mér voru veittar og bauð mun meiri hjálp en mér sjálfri hefur nokkurntíma verið boðið. Óhrædd er ég, ég! Ég andmæli ranglæti og vonsku og tek afleiðingunum af því að eina manneskjan sem ég þarf að heilla er ég. Ég er steinhætt að afsaka það sem ég er, ef ég er ekki nógu góð fyrir fólk þá bara læt ég það í friði. Ég viðurkenni óhrædd mistökin mín og biðst af öllu hjarta afsökunnar þegar ég geri eða segi rangt og veit það er aldrei viljandi. Ég legg mig í lima við að gera vel við þá sem eiga það skilið og í raun geng oft að mér dauðri í að vera góð við aðra. Ég ber hvorki hatur né illindi til neins en hef sagt mitt við fólk sem ég hef haft ósagða hluti við lengi. Það á enginn neitt inni hjá mér en ég geri mér það ekki að heimta ást eða viðurkenningu neinsstaðar….ber engum nein skylda til neins gagnvart mér. Allar uppákomur, skilnaðir, áföll, óheppni “blabla” í mínu lífi hafa gefið mér eitthvað. Ég lærði og uppskar eitthvað jákvætt sem ég þakka fyrir. Ég fékk lífið og lífið sat uppi með mig….eða öfugt?

Lífið er núna og á hverri mínútu gæti ég dáið. Mín eigin sátt í mínum eigin haus er sú sem skiptir máli þegar að þeirri stundu kemur. Ég get í dag og ætla mér að standa við alla daga alltf…..“Viljandi gerði ég engum manni illt, ég gerði eins vel og ég gat”

Lífið gaf mér ást oftar en einu sinni, lífið gaf mér börn, lífið gaf mér lexíur og upplifanir. Lífið gaf mér tónlistina og lagið mitt. Lagið mitt þarf ekki að vera á vinsældarlistum útvarpsstöðva, þurfti enga frægð né frama, ég þurfti eigin frægð. Lagið mitt er gjöfin til mín og eina markmiðið sem ég hef sett mér í lífinu sem ég ætlaði að ná, það varð til vegna áfalla sem og gjafa í lífinu og upphefur það sem skiptir máli. Uppáhalds lag þeirra sem máli skipta það er smíðað af fegurðinni sem ég vill upphefja til þess aleina að neita mér um að hugsa um annað en fegurð. Börnin mín græddu sko ekki bestu mömmuna eða uppeldisaðstæður og munu aldrei erfa fjársjóði í aurum talið. Lagið mitt er arfurinn til þeirra, þau munu alltaf geta heyrt glaðlegu röddina mína syngja um ástina og sáttina og þau munu alltaf lifa að þeim fjársjóði sem í mér fólst hvort sem var af mistökum mínum eða afrekum. Stærsti fjársjóðurinn sem ég gef þeim og mun alltaf gefa er að þau elska ég skilyrðislaust, þau þurfa ekki að henta neinum til að vera nógu góð fyrir mig.

Ég þarf ekki að vita eða telja hendur þeirra sem elska mig eða er vel við mig til að vita hvers virði ég er. Vanmátturinn felst ekki í að laga sjálfa mig heldur í öllum þeim sem ég vildi óska að ég gæti hjálpað og sæu hvað ég vill þeim vel þó ég neiti þeim um að gera mér illt í leiðinni. Að lifa í hatri, biturð, samviskubiti og fortíðarupprifjunum er eitthvað sem ég veit að er ekki góður dagur hvað þá dagar eða ár. Dagurinn í dag skiptir máli, ég gerði engum viljandi illt, ég gerði eins vel og ég gat. Ef þú leitar að bjargvætti þínum til að lifa leitaðu fyrst í speglinum hann er þar að finna.

 

Draumurinn minn:

 


Um bloggið

Sigrún Dóra Jónsdóttir

Höfundur

Sigrún Dóra Jónsdóttir
Sigrún Dóra Jónsdóttir

Ung kona með skoðanir

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband